Ég á við ákveðið lúxusvandamál að stríða um þessar mundir. Ég fór á laugardaginn ásamt Keizaranum og sótti pöntunina okkar. Við (aðallega ég) urðum þó fyrir smá áfalli þegar heim var komið, því Brancaia Tre sem við pöntuðum reyndist vera annar árgangur en sá sem við pöntuðum – 2008 en ekki 2007! Nú reyndust góð ráð dýr – átti að skila víninu (heill kassi) eða halda því?
Við gerðum auðvitað hið eina rétta – við prófuðum vínið og bárum saman við 2007. Við keyptum nautalund, gerðum Bernaisesósu og ofnsteiktar kartöflur og svo var prófað. 2007 var auðvitað guðdómlegur og 2008 var bara skrambi góður – ekki jafn góður og 2007 en samt mjög gott vín! Við ákváðum auðvitað að halda víninu og þá er einmitt komið að lúxusvandamálinu mín: Brancaian komst ekki inn í kælana því þeir eru yfirfullir! Ég hef ekki lent í þessari aðstöðu áður og kenni því auðvitað um að vínneyslan hefur minnkað verulega í sumar vegna þess að Guðrún er ólétt og ég opna ekki vínflösku bara fyrir sjálfan mig. Þegar hún má fara að fá sér vínglas á nýjan leik þá verður því úr nógu að velja!