Einn af kostunum við að vera áskrifandi að Wine Spectator (fyrir utan online-aðganginn að gagnagrunninum þeirra og skemmtilegt blað að lesa) er ég fæ reglulega tölvupóst frá þeim um margt sem tengist vínum. Sumt er bara aðgengilegt fyrir áskrifendur, annað er opið öllum. Eitt af því sem bara áskrifendur komst í er s.k. Wine Spectator Advance, sem er 2 síðna bæklingur (pdf-skjal) yfir áhugaverðustu vínin sem fjallað er um í hverju blaði, og þennan bækling fá áskrifendur nokkrum dögum áður en blaðið sjálft kemur úr. Ég var að renna í gegnum síðustu tvo bæklinga og fann nokkur áhugaverð vín, þar á meðal eitt sem mig grunar að eigi eftir að lenda hátt á listanum yfir vín ársins – gæti jafnvel komið til greina sem vín ársins!
Ég fann nokkur vín sem sum hver fást í almennum vínbúðum á Íslandi og í Svíþjóð, önnur þarf að panta:
- Campo Viejo Tempranillo Rioja Reserva 2005 – 89 punktar (94 SEK / 2.250 ISK) – í almennri sölu (nr.6083)
- Peter Lehmann Clancy’s Barossa 2007 – 90 punktar (2.999 ISK) – fæst á Eiðistorgi
- Piccini Chianti 2009 – 86 punktar (75 SEK / 1.779 ISK) – í almennri sölu (nr. 22467)
- Clos la Coutale Cahors 2008 – 88 punktar (119 SEK)
Svo er auðvitað rúsínan í pylsuendanum, Ruffino Modus 2007 sem fær 96 punkta og ætti ekki að kosta mikinn pening. Það uppfyllir þar með helstu skilyrðin fyrir því að geta verið útnefnt vín ársins – gæði og verð, bara spurning um framleiðslumagn og aðgengi. Annað vín sem líka kemur til greina (að mínu mati) er hið stórkostlega púrtvín frá Dow (sem ég pantaði fyrir nokkru!). Ruffino Modus er því miður hvorki fáanlegt á Íslandi né í Svíþjóð, en ég er búinn að senda fyrirspurn til innflutningsaðilans í Svíþjóð hvort það verði mikið mál að panta vínið í gegnum þá. Ég hvet áhugasama á Íslandi til að gera slíkt hið sama í einum grænum – talið við Ölgerðina og biðjið þá um að panta vínið eins og skot! Ruffino á nokkur vín í sölu í báðum löndunum og því er ekki útilokað að hægt sé að komst yfir eins og einn kassa af þessu spennandi víni…