Já, það styttist sko í sumarfríið! Ég þarf bara að vinna þessa viku og þá næstu og svo er ég kominn í frí. Við verðum á Íslandi í rúmar 3 vikur og náum vonandi að hitta eitthvað fólk á þeim tíma. Ég verð reyndar að vinna dálítið á Landspítalanum en það ætti þó ekki að aftra okkur frá því að sviptast svolítið um á suðvesturhorninu.
Hér hefur reyndar verið einmuna blíða, sól og allt að 25 stiga hiti upp á hvern dag. Um helgina sáum við okkur tilneydd að elda góðan mat og fengum Keizarann í mat með fjölskylduna. Við heilgrilluðum nautalaund og bárum fram með bökuðum kartöflum, grilluðum aspas og vorlauk ásamt grænpiparsósu. Nautalundin var krydduð með timjan, rósmarín ásamt svörtum og grænum pipar. Með þessu drukkum við svo síðustu flöskuna af Seghesio Zinfandel 2007. Ákaflega þétt og gott vín og synd að ég eigi ekki meira!
Það hefur svo sem lítið farið fyrir öðrum vínprófunum síðustu daga og þessa vikuna er ég svo á bakvakt. Um helgina er þó útlit fyrir meira fjör því við erum boðin í fertugsafmæli hérna í næstu götu.