Vínkælirinn minn hefur tútnað dálítið út síðustu daga. Ég fékk mínar þrjár flöskur af Dow’s 2007 árgangspúrtvíni og stefni að því að prófa eina flöskuna eftir 10 ár eða svo! Þetta er besta púrtvín sem hefur komið frá Dow’s og það er ekki á hverju ári að púrtvíni fái fullt hús stiga hjá Wine Spectator. Um daginn var svo hringt í mig frá vínbúðinni minni. Þeir voru að taka til í hillunum sínum og fundu þá nokkrar flöskur af Casa Lapostolle Clos Apalta 2007 sem ég hafði pantað fyrir mig og Einar Brekkan. Ég hafði aldrei fengið boð um að vínið hefði komið og var eiginlega búinn að afgreiða þetta sem svo að pöntunin hefði misfarist. Nú er tvær slíkar flöskur komnar inn í kælinn minn og ástand hans er alveg einstaklega gott!
Í gær var auðvitað úrslitaleikur Meistaradeildarinnar og við hittumst félagarnir heima hjá dr. Leifssyni til að horfa á leikinn. Ég hafði hitað upp fyrir leikinn með því að fara með eldri dótturina á fótboltamót þar sem þær náðu góðum árangri – einn sigur og eitt jafntefli. Svo grillaði ég lambalæri (kryddað með blöndu af fersku timjan, rósmarín, hvítlauk, salti og pipar) og var ákaflega ánægður með útkomuna. Með þessu drakk ég Peter Lehmann Cabernet Sauvignon Mentor 2004. Mjög gott vín sem var orðið ágætlega þroskað – góður keimur af berjum og kryddi, mjúk tannín og þétt eftirbragð sem entist nokkuð lengi. Passaði vel með lærinu! Úrslit leiksins voru svo ekki alveg eins og við höfðum óskað okkur, en Keizarinn og Dr. Leifsson eru báðir mjög harðir stuðningsmenn FC Bayern (ekki Bayern Munchen eins og svo margir segja, heldur á segja FC Bayern – a.m.k. gera menn svo í Munchen). Við náðum þó að prófa nokkrar tegundir af þýskum bjór og vonandi get ég greint betur frá þeim athugunum síðar, en dr. Leifsson hélt utanum bókhaldið og hér með er óskað eftir afriti af þeim niðurstöðum!
Ég er á leið til Falun í kvöld og get þá kannski laumað inn 1-2 færslum…