Tengdó eru í heimsókn hjá okkur um þessar mundir og við gripum tækifærið að hafa barnapössun!
Um helgina brugðum við undir okkur betri fætinum og skruppum til Stokkhólms að hitta Hugrúnu og Hermann sem voru þar stödd í helgarferð. Við röltum um gamla bæinn og brugðum okkur inn á veitingahúsið Mårten Trotzig þar sem við snæddum mjög góðan hádegisverð – lambakjöt, entrecote og villibráðarkjötbollur. Með þessu drukkum við flösku af Becquer Rioja 2005, prýðisgott rauðvín með mjúkum eikar- og pipartónum.
Um kvöldið ætluðum við að fá okkur eitt glas á Prime Winebar en þar var allt uppbókað svo að ekkert varð af þeirri heimsókn. Við héldum því á Sturehof, veitingahús við hið margfræga Stureplan, sem mér skilst að sé miðpunkturinn í skemmtanalífi Stokkhólms (ef svo er eiga þeir ýmislegt ólært af miðbæ Reykjavíkur!). Sturehof er frekar trendý veitingastaður sem leggur áherslu á fisk og skelfisk, en er einnig með fínan vínlista. Vínið sem mælt var með þetta kvöld var Joseph Phelps Cabernet Sauvignon 2005, hvorki meira né minna, og fyrir ekki meiri pening en 750 SEK per flösku. Það leiddi nánast til þess að maturinn var valinn út frá víninu! Í forrétt fékk ég mér andalifrarterrine en hin fengu sér hörpuskel. Forrétturinn var mjög góður og gaf fögur fyrirheit um það sem koma skyldi. Aðalrétturinn var unglamb með var borin fram með m.a. einhvers konar lambapylsu og kartöflum. Lambið og pylsan voru hins vegar brimsölt! Við höfðum orð á því við þjóninn og það var eins og við manninn mælt – hann lét varla sjá sig það sem eftir lifði kvöldins! Hann reyndi undir lokin að selja okkur eftirrétt en okkur fannst vera nóg komið og héldum okkar leið. Rauðvínið var hins vegar firnagott!!! Við fengum okkur Creme Brulé á nálægri krá og héldum síðan á rölt um bæinn að prófa bjór og annað gott…
Niðurstaðan af þessu rölti okkar var sú að ég get eindregið mælt með veitingastaðnum Mårten Trotzig, en það verður bið á því að ég fari aftur á Sturehof.