Í gær eldaði ég lambalæri, kryddað með hvítlauk og rósmarín, og bar fram með ofnsteiktu rótargrænmeti. Uppskriftina er að finna í Gestgjafanum, nánar tiltekið í blaðinu þar sem er að finna bestu uppskriftir ársins 2009. Með þessu drukkum við Les Tourelles de Longueville Pauillac 2005. Þetta er „litla“ vínið frá Chateau de Longueville en samt er þetta í raun ekkert lítið vín. Árið 2005 var auðvitað ákaflega gott í Bordeaux og það skiptir nánast engu máli hvaða vín maður velur – öll 2005-vín frá Bordeaux eru örugg kaup. Þetta vín keypti ég í Fríhöfninni í Keflavík og borgaði að mig minnir rúmar 4000 krónur fyrir og ég vil kalla það góð kaup. Vínið er unglegt að sjá en með góða dýpt. Í nefið fær maður fjólur, plómur, leður og vott af hesthúsi, en er ekki alveg búið að opna sig, þrátt fyrir að hafa verið umhellt klukkustund áður en það var drukkið. Í munni hefur vínið góða fyllingu, nóg af sýru og tannínum, en samt er það mjúkt og með langt og gott eftirbragð. Vínið þarf a.m.k. 1-2 ár í viðbót áður en það blómstrar út, en mun örugglega njóta sín vel næstu 7-10 árin. Einkunn: 8,5 – Góð Kaup!
Í eftirrétt gerði ég þrílitan súkkulaðibúðing. Með því drukkum við Ruppertsberger Linsenbusch Riesling Eiswein 2008. Fallegt, gullið vín með angan af apríkósum og sítrusávöxtum. Í munni sætt og þétt með góðu eftirbragði.