Það virðist vera komið í tísku hjá sumum af fremstu matreiðslumönnum heims að loka veitingahúsum sínum til að prófa eitthvað nýtt. Þannig tilkynnti Ferran Adrià, sem rekur veitingastaðinn El Bulli, að hann ætli að loka staðnum um næstu áramót og taka sér tveggja ára frí til að fá nýjar hugmyndir! El Bulli er staðsettur í litlu þorpi fyrir norðan Barcelona og er almennt talinn vera besti veitingastaður heims. Á hverju ári berast um ein milljón borðapantanir en aðeins 8000 manns komast þó að á einu ári. Staðurinn hefur oft verið efstur á listum yfir bestu veitingastaði heims og á listum á borð við „things to do before you die“.
Nú hefur Christer Lingström, sem rekur Edsbacka krog í Sollentuna í Svíþjóð, ákveðið að loka staðnum um næstu mánaðmót. Edsbacka krog hefur verið starfrækt í 27 ár og er einn af örfáum veitingastöðum á norðurlöndum sem hafa hlotið tvær Michelin-stjörnur. Nú er Christer orðinn leiður á að elda „fancy“ mat og vill fara að gera „venjulegan“ mat. Hann opnaði annan veitingastað handan götunnar fyrir nokkrum árum, Edsbacka bistro, þar sem hann eldar „venjulegan“ mat og hyggst nú færa út kvíarnar og opna fleiri slíka staði víðsvegar í Svíþjóð.
Já, það er víst ekki tekið út með sældinni að reka vinsæla veitingastaði í fremstu röð!