Við brugðum undir okkur betri fætinum og héldum til Íslands yfir jól og áramót – í fyrsta skipti síðan 2002 að við höldum jól og áramót á Íslandi. Ferðin var þó hálf endasleppt því ég var kominn með hita nóttina fyrir brottför, var hundslappur um morguninn og nánast eins og liðið lík þegar við lentum á Íslandi. Síðan lá ég í bælinu yfir jólin og endaði að lokum á sjúkrahúsi með veirusýkingu í hjartavöðvanum! Ég var þó útskrifaður rétt fyrir áramót (rétt slapp við hjartaþræðingu!) og náði að fagna áramótunum á Selfossi hjá mömmu og pabba. Það voru þó ekki mikil hátíðahöld hjá mér en þó snöggtum skárra en að vera á sjúkrahúsi yfir áramót! Ferðin heim var öllu þægilegri og nú þarf ég bara að taka því rólega næstu vikurnar.
Ég náði þó að kaupa mér pínulítið rauðvín í Fríhöfninni (tvær Tignanello, tvær Les Tourelles de Longueville og eina Peter Lehmann Mentor). Nú ætla ég að reyna að taka saman árið 2009 á Vínsíðunni og útnefna vín ársins. Líkt og áður hefur enginn komið með tillögu að víni ársins þannig að ég hef nokkuð frjálsar hendur með þetta. Svo er ég að hugsa um hvort ég eigi að breyta aðeins einkunnagjöfinni hjá mér, kannski að færa hana í svipaðan stíl og Wine Spectator eða amaroneguiden.se, jafnvel með einhverri grafík fyrir hverja umsögn. Allar athugasemdir um þetta eru vel þegnar.