Í gær eldaði ég roastbeef á minn hefðbundna hátt (vel kryddaður með svörtum, græn- og rósapipar) og gerði Bernaisesósu með sem mér tókst að eyðileggja á lokasprettinum (missti saltið út í sósuna í bókstaflegri merkingu – kenni auðvitað saltbauknum og salttegundinni um, fer og kaupi nýtt í vikunni!). Sósan var mjög góð þar til hún ofsaltaðist! Kjötið var líka mjög gott og féll í góðan jarðveg.
Mín Bernaisesósa er nokkurn veginn eins og sósan í Landsliðsbók Hagkaupa – Skalottulaukar, Estragon og hvítvín soðið niður, eggjarauðum hrært út í og að lokum er bráðnu smjöri bætt í. Hvítvínið sem ég notaði er frá Jacob’s Creek og heitir Three Vines Semillon Sauvignon Blanc Viognier 2008. Þetta er nokkuð frísklegt vín, nánast glært í glasinu. Góður ilmur af sítrus, melónum og grænum epplum. Í munni er það jafn frísklegt og lyktin, ekki mikil fylling en það rennur samt ljúflega niður. Gott sumarvín. Einkunn: 6,5 – Góð Kaup (77 SEK).
Með steikinni drukkum við Montecillo Rioja Crianza 2006. Þetta vín hef ég oft drukkið áður og jafnan góð kaup í því. Það er dökkrautt að sjá, unglegt en ekki mikil dýpt. Í nefinu er nokkuð áberandi útihúsalykt, eik og dökkt súkkulaði. Ég var þó ekki alveg jafn ánægður með vínið þegar ég smakkaði það, því mér fannst sem útihúsalyktin hefði skilað sér fullmikið í bragðið (skemmd flaska?). Vínið mýktist þó þegar leið á kvöldið og fékk á sig kunnuglegri blæ. Líklega hefði það haft gott af smá umhellingu (þó það sé eitthvað sem Crianzavín þurfa sjaldnast á að halda). Einkunn: 6,5.
Nú tekur við vaktavika hjá mér og því væntanlega rólegt hér á síðunni næstu daga. Þann 23. förum við svo til Íslands…