Næstkomandi fimmtudagur er stór dagur – þá er hægt að panta Bordeaux 2006 í Systeminu. Þetta er ágætis árgangur (vinstri bakkinn fær 90 punkta hjá Wine Spectator, hægri bakkinn 89 punkta), mun betri en 2007 og 2008 sem eru í lakari kantinum. Hins vegar bliknar 2006 í samanburði við 2005-árganginn sem var hreint stórkostlegur. Í 2006-árgangnum eru þó ágætis vín inn á milli og sum á nokkuð góðu verði. Ég er að velta fyrir mér að panta nokkrar flöskur en hef enn ekki gert upp við mig hvað ég á að kaupa. Margt kemur til greina, en valið takmarkast þó af því að ég hafði ekki hugsað mér að eyða meira en 1500-200 SEK í þetta og vil auðvitað fá sem mest fyrir peninginn. Á sumum vínunum eru takmörk fyrir því hversu margar flöskur pá panta (eftirsóknarverð vín þar sem tiltölulega fáar flöskur eru í boði). Ég hef því aðeins lagst yfir það sem í boði er og eins og er stendur valið á milli þessara:
- Chateau Gruaud-Larose 2006 (90p, 494 SEK) – 3-4 flöskur ?
- Chateau Léoville-Barton 2006 (94p, 638 SEK, kvóti 2 flöskur/mann) – 2 flöskur ?
- Chateau Talbot 2006 (91p, 412 SEK) – 3-4 flöskur ?
- Chateau Kirwan 2006 (90p, 459 SEK) – 3-4 flöskur ?
- Chateau Chasse-Spleen (89p, 260 SEK) – 6 flöskur ?
Svo eru reyndar nokkrar aðrar flöskur úr 2006-árgangnum sem eru þegar komnar í sölu og gætu allt eins verið jafn góð kaup:
- Chateau Cantemerle 2006 (88p, 265 SEK)
- Chateau Clerc-Milon 2006 (91p, 415 SEK)
- Chateau de Valois 2006 (88p, 239 SEK)
- Chateau Mazeyres 2006 (89p, 220 SEK)
- Chateau Pibran 2006 (90p, 253 SEK)
Auðvitað er ýmsilegt annað sem mann langar í, s.s. Chateau Margaux (sem kostar aðeins 9.996 SEK), Chateau Haut-Brion (7.110 SEK) eða Chateau Mouton-Rothschild (6.352 SEK), en þau eru eiginlega aðeins fyrir utan mína fjárhagsáætlun að þessu sinni.
Allar ráðleggingar varðandi þessi kaup eru vel þegnar!