Já, nú er ég staddur í Berlín og get því gert hin ódauðlegu orð Kennedys að mínum. Ég er á ráðstefnu krabbameinslækna og verð að segja að mér finnst ég stundum vera hálf utangátta hérna enda nokkuð ólíkt þeim heimi sem ég er vanur að sjá á ráðstefnum.
Hvað um það – í gær borðuðum við á restaurant Wilson hér á hótelínu. Þetta er steikhús og bauð upp á góða nautasteik og með því drukkum við Fetzer Oak Valley Zinfandel (ég stakk upp á Carmenére frá Chile en hafði ekkert ákvörðunarvald). Steikin var góð, rauðvínið var allt í lagi – fátæklegur ilmur af súkkulaði, eik og leðri ásamt vott af kirsuberjum, þokkaleg fylling en fulllítil tannín.
Í kvöld fórum við á Restaurant NU sem er asískur staður og það er óhætt að mæla með honum. Ég borðaði risarækjur með ýmis konar meðlæti og það var þvílíkt lostæti. Með þessu drakk ég Panul Sauvignon Blanc og ég varð fyrir pínulitlum vonbrigðum með það. Það var mjög þurrt, skorti talsverða sýru og minnti næstum á Gerwurztraminer. Það passaði þó nokkuð vel með risarækjunum svo að útkoman varð vel heppnuð.