Það nægir að drekka tvö glös af Chill Out Sunset til að fá í sig meira en æskilegan dagskammt af súlfíði (brennisteinstvíildi eða brennisteinsdíoxíð, sulphur dioxide). Og hvað með það?
Jú, ef þú ert með astma gæti það verið sérstaklega slæmt fyrir þig! Um 5 % af astmasjúklingum eru sérstaklega næmir fyrir þessu efni Brennisteinstvíildi hefur í aldaraðir verið bætt út í vín til að bæta geymsluþol þess og fjarlægja óæskilega lykt. Það var þó ekki fyrr en upp úr 1980 að farið var að veita því athygli að þetta væri kannski ekki alveg hættulaust. Nokkur dauðsföll sem rakin voru til súlfíðs urðu til þess að sett voru lög sem takmarka notkun þessa efnis í matvælum, þ.á.m. vínum. Vínframleiðendur eru nú skyldugir til að geta þess á flöskumiðanum ef vínið inniheldur súlfíð. Yfirleitt eru um 50-150 mg af súlfíði í hverjum lítra víns, og hámarkið er um 160 mg. Þar sem æskilegt hámark fyrir venjulegan einstakling eru um 0,7 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar, þá myndi 80 kg karlmanni nægja eitt stórt (300 ml) vínglas af víni sem inniheldur 150 mg/l súlfíð. Því hefur líka verið haldið fram að eftir því sem vínið inniheldur meira súlfíð séu meiri líkur á að fá höfuðverk af völdum víndrykkjunnar!
Í bæjarblaðinu mínu er í dag grein um einmitt þetta efni og samantekt rannsóknar sem rannsóknarstofan Eurofin hefur gert á kassavínum (í kassavínum er oft meira af súlfíðum til að verja vínið, því plastið veitir ekki sömu vörn og glerflaskan þannig að vínið skemmist fyrr, jafnvel áður en kassinn er opnaður, og venjuleg kassavín hafa yfirleitt ekki nema 6-9 mánaða geymsluþol, þ.e. áður en þau eru opnuð). Einnig er greint frá magni sorbínsýru í víninu (rotvarnarefni sem bætt er í vín til að hindra að gerjun haldi áfram í flöskunni, líkt og gerist í kampavínum – magnið sem sett er í vínið það lítið að það er ekki skaðlegt heilsunni) og leifum af skordýraeitrum sem fundust í vínunum (fjöldi efna í víninu tilgreindur, ekki magn). Athyglisvert er að í ítölsku vínunum er að finna leifar eftir flest skordýraeitur.