Í gær buðum við nokkrum nágrönnum í grill – eitthvað sem lengi hefur staðið til en ekki orðið af fyrr en nú. Við grilluðum rauðvínsmarineraða nautasteik og með því bárum við fram kartöflugratín, salat og villisveppasósu. Krakkarnir fengu grillaða hamborgara og voru alsælir með það. Með nautinu drukkum við Torres Gran Coronas Reserva 2005. Þetta vín er 85% Cabernet Sauvignon með 15% Tempranillo. Ungt Reservavín sem er dökkt að sjá en samt unglegt í röndinni. Ilmur af eik, kirsuberjum, kryddi og ávöxtum ásamt smá leðri. Í munni dálítið tannískt en þau eru þó aðeins farin að mýkjast, eikar- og ávaxtabragð með vott af kakói. Ágætis eftirbragð sem endist vel. Smellpassaði við nautakjötið! Einkunn: 7,0