Þá hefur tímaritið Wine Spectator birt lista sinn yfir vínvæna veitingastaði fyrir árið 2009. Áður hefur veitingastaðurinn Fjalakötturinn komist á þennan lista en í ár er engan íslenskan veitingastað að finna á listanum. Hvort um er að kenna minnkandi áhuga eða afleiðingum efnahagsástandsins skal látið ósagt, en rétt er að taka fram að það kostar bæði vinnu og peninga að komast á listann (einmitt – staðirnir borga fyrir að fá viðurkenninguna, en fá kannski smá auglýsingu í staðinn). Auðvitað eru flestir staðirnir á listanum í henni Ameríku en það þýðir samt ekki að þar séu allir bestu veitingastaðir heims, heldur eru þeir viljugastir að koma sér inn á listann, enda um amerískt tímarit að ræða. Til að komast á listann verða staðirnir líka að hafa nokkuð góðan vínlista (og vínkjallara, sem aftur kostar pening – þið munið hvernig fór fyrir Sommelier). Hér í Svíþjóð eru t.a.m. aðeins 8 staðir á listanum, sem flestir hafa rúmlega eitt þúsund mismunandi vín (hér getur verið um að ræða marga árganga af sama víni) á sínum lista. Í fyrra fór ég til London og borðaði á Clos Maggiore, sem hefur um 2.400 vín á sínum lista og hlaut fyrir það viðurkenninguna „Best of award of excellence„. Þetta var nokkuð þykk mappa og áhugaverð lesning…