Já, nú er ég kominn í vikulangt frí sem er kærkomið eftir útlegð undanfarinna vikna. Ég hélt upp á fríið með því að grilla nautalund og bjó til bernaise-sósu (engin pakkasósa heldur alveg frá grunni). Með þessu drukkum við Antinori Badia A Passignano Chianti Classico 2005. Ég keypti þetta vín í fríhöfninni og það kostaði um 3.000 krónur. Þetta er fallega rautt vín, enn nokkuð unglegt að sjá en með þokkalega dýpt. Í nefið fær maður góðan súkkulaði og ávaxtakeim (kirsuber og plómur), smá leður, pipar og auðvitað eik. Í munni er vínið í góðu jafnvægi, tannínin aðeins farin að mýkjast, fyllingin góð og eftirbragðið langt og þétt. Einkunn: 8,5 – Góð Kaup! Vínið féll mjög vel með nautalundinni og ég á örugglega eftir að kaupa þetta aftur!