Í gær fór ég og fékk mér að borða á veitingastaðnum Chapeau d’Or. Ég fékk mér pasta með nauta- og sveppasósu sem var bara nokkuð góð, dálítið pipruð reyndar en það var allt í lagi. Með þessu fékk ég mér glas af Candido Cappello di Prete Negro amari 2006, sem kemur frá svæði sem heitir Salento í Puglia-héraði (hællinn á Ítalíu). Vínið er gert úr þrúgunni Negro amari, og ég held alveg örugglega að ég hafi aldrei prófað vín úr þeirri þrúgu áður. Þetta var dökkt vín, unglegt með dálítið sætan eikar- og kirsuberjailmi, dálítið krydduðum með vott af lakkrís. Í munni er það frísklegt, lítið um tannín en meira af sýrunni, dálítið sætur keimur með stuttu en þokkalegu eftirbragði.
Þessi þrúga, Negro amari, er nánast eingöngu ræktuð í Puglia, og reyndar eru sum af bestu vínunum frá Puglia einmitt gerð úr þessari þrúgu og koma einmitt frá Salento! Annars er þrúgan talsvert notuð til íblöndunar við vín úr t.d. Sangiovese og Montepulciano.
(heimild: Wikipedia)