Sumarvínið mitt í ár er Foot of Africa Chenin Blanc, létt og skemmtilegt hvítvín í kassa! Þetta er einstaklega þægilegur sumardrykkur, tilvalið þegar verið er að undirbúa matinn og grillið að hitna. Chenin Blanc er ekki mjög þekkt þrúga – hana er aðallega að finna í Loire-héraði í Frakklandi og í Suður-Afríku, þar sem hún er reyndar algengasta þrúgan og gengur þar oft undir nafninu Steen. Þrúgan er sýrurík og fjölhæf, þannig að hana má nota jafnt í freyðivín sem sætvín og allt þar á milli. Hún er einnig móttækileg fyrir staðbundnum áhrifum, eða terroir, og getur þannig haft súrsætan eplakeim eða eða hunangs- og blómakeim, allt eftir því hvar hún vex. Í góðu árferði er einnig hægt að láta þrúgurna fá á sig eðalmyglu og nota í sætvín. Hún hentar einnig vel til blöndunar við Sauvignon Blanc og Chardonnay, og víngúrúinn Jancis Robinsson telur hana eina fjölhæfustu þrúguna sem finnst.
Chenin Blanc gengur vel með salati, fiskréttum og kjúklingi, og sætari vín úr þessari ágætu þrúgu geta gengið vel með krydduðum réttum frá Asíu og Mið-Ameríku.