Í fyrradag fögnuðum við því að vera komin í sumarfrí. Lambalærið var sett á grillið og á meðan það var að steikjast opnuðum við Montes Sauvignon Blanc 2007 og gæddum við okkur á grilluðum humri. Með lambinu drukkum við Les Tourelles de Longueville 2005. Þetta er „litla“ vínið frá Chateau Pichon de Longueville í Pauillac, Bordeaux. Þessi rómaði 2005-árgangur stendur svo sannarlega undir nafni, því hér er mjög gott vín á ferðinni þrátt fyrir að vera s.k. „litla vín“ eða „annað vín“ framleiðandans. Það er dökkrautt, unglegt að sjá með góða dýpt. Í nefið kemur góð fjósalykt ásamt leðri, pipar og franskri eik, vott af súkkulaði og berjum. Í munni er vínið vel þétt í góðu jafnvægi, mikið af tannínum, langt og gott eftirbragð. Vín sem á nóg eftir og ætti í raun ekki að opna fyrr en eftir nokkur ár. Þeim sem eiga leið um fríhöfnina í Keflavík á næstunni er sterklega bent á að kippa þessu víni með sér, því það kostar ekki nema um 4.300 krónur sem er reyfaraverð fyrir þetta vín!
Á eftir opnuðum við svo eina Seghesio Zinfandel 2007, vín sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér s.l. vetur – það lenti í 10. sæti á árslista Wine Spectator, kostar ekki nema 170 SEK og fæst þar að auki í vínbúðinni minni!