Fyrir rúmri viku fórum við á veitingastaðinn Fish Market við Aðalstræti. Með í för voru Brekkan-hjónin ásamt nokkrum svíum, alls 11 manna hópur. Við höfðum sammælst um að taka hópmatseðilinn, sem er s.k. tasting menu (hvað kallast slíkt á íslensku?) með 9 réttum. Við fengum m.a. svínarif, krabbakjöt, sushi och sashimi, lax, wasabisallat ásamt fleiri réttum. Flestir voru réttirnir mjög góðir og gestirnir voru sammála um að þetta hafi verið mjög vel heppnað kvöld. Upphaflega ætluðum við bara að vera 8 og borðið pantað miðað við þann fjölda. Smám saman bættist í hópinn og á endanum urðum við ellefu, en það var ekkert mál að bæta við nokkrum gestum! Staðurinn var fullsetinn, en þjónustan var þó til fyrirmyndar. Eini gallinn við staðinn er að það er mjög hljóðbært og því nokkuð mikill hávaði í salnum þegar hann er fullsetinn. Matseðilinn sá ég eiginlega aldrei (við vorum jú búin að ákveða matinn fyrirfram) en vínseðillinn var nokkuð góður – ódýrustu vínin voru á rúmar 5.000 kr en einnig var hægt að fá alvöru bolta ef maður var tilbúinn að reiða fram hærri upphæðir!
Við fengum okkur Saint Clair Sauvignon Blanc 2007 og Saint Clair Pinot Noir 2007 frá Marlborough á Nýja-Sjálandi. Sauvignon blanc er unglegt vín með epla- og stikilsberjakeim, frísklegt í munni með góðri sýru og í góðu jafnvægi. Góð kaup. Pinot noir var unglegur að sjá með berja- og kryddkeim, sýran aðeins yfir meðallagi og þokkalegt eftirbragð.
Ánægjuleg kvöldstund á góðum veitingastað sem ég væri alveg til í að endurtaka!
St. Clair sauvignon blanc og Pinot noir