Í nýafstaðinni Íslandsheimsókn okkar vorum við boðin í mat til Hugrúnar og Hermanns. Þau búa á Álftanesinu í námunda við húsbrjótinn alræmda (réttara sagt, hann bjó þarna nálægt).
Það er alltaf gaman að koma heim til Hugrúnar og Hemma. Þau töfra alltaf fram dásamlega rétti og Hemmi kann sko að velja vín við hæfi! Að þessu sinni grillaði hann bleikju að hætti Rikku (hann útskýrði fyrir mér hver það væri en það skolaðist eitthvað til hjá mér þegar leið á kvöldið – væri gott að fá komment á það hver þessi Rikka er!). Bleikjan var marineruð í m.a. soja, kóríander, sítrónugrasi, hvítlauk og fleiru, grilluð í álumslagi og bragðbætt með sesamfræjum. Útkoman hreint út sagt stórkostleg! Með þessu drukkum við Planeta Chardonnay (man ekki hvaða árgang) – frábært hvítvín frá Sikiley. Það er óvenjudökkt af chardonnay að vera, liturinn og lyktin minnti nánast á sætvín – hunang, apríkósur og eik. Bragðið þétt og jafnvægið mjög gott, langt og gott eftirbragð. Eftir á að hyggja get ég varla hugsað mér betra vín með bleikjunni.
Fyrir matinn hafði Hemmi dregið fram Penfolds Grange 1993. Þar er sko ekkert smávægilegt vín á ferðinni – flaggskip Penfolds og stolt ástralskrar vínframleiðslu! Vínið var mjög dökkt í glasinu með mikla dýpt – ákaflega falleg sjón. Þegar við lyktuðum af víninu fórum við í sæluvímu – sólberjahlaup, pipar, leður, súkkulaði…, listinn gæti verið nánast óendanlegur en ég verð samt að minnast á að við töldum okkur finna lykt af hreindýrablóði! Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek eftir þessu í víni og almennt séð myndi ég ekki segja að lykt af hreindýrablóð væri neitt sérstaklega góð en í réttu samhengi er hún kynngimögnuð og seiðandi. Stórkostlegt vín og nánast hægt að segja að við höfum fengið lyktarfullnægingu (ef slíkt er nú til)! Þegar í munninn var komið var upplifunin ekkert síðri. Geysilega þétt vín, tannínin orðin mjúk en áttu samt eitthvað eftir. Vínið var í fullkomnu jafnvægi, bragðið hrein unun og eftirbragðið nánast óendanlegt. Vín sem á mörg ár, ef ekki áratugi eftir!
Á eftir opnuðum við Joseph Phelps Cabernet Sauvignon 1996. Þetta er þéttur bolti frá Napa Valley, alvöru bolti en leið töluvert fyrir það að vera drukkið á eftir Grange, enda flest vín hálf lítilfjörleg í samanburði við það. Vínið var þó einnig fallega dökkt með góða dýpt, kominn góður þroski. Í nefinu fundum við lykt af gráðaosti, eik og leðri, pipar og kryddi. Vínið var í góðu jafnvægi, tannínin mjúk og góð, fyllingin góð og eftirbragðið mjög þétt og langt. Frábært vín en leið eins og áður sagði fyrir það að koma á eftir Grange.
Stórkostlegt kvöld eins og alltaf hjá Hugrúnu og Hemma – takk fyrir okkur! Við Hemmi ákváðum líka að halda vínklúbbsfund í næstu Íslandsheimsókn okkar í byrjun september og ég er þegar farinn að hlakka til.