Síðastliðið föstudagskvöld var ég veislustjóri í tæplega 500 manna veislu og stóð mig auðvitað með stakri prýði! Veislan fór fram á Broadway og gestirnir voru að lang stærstum hluta erlendir. Í forrétt var gestum boðið upp á koníaksbætta humarsúpu sem var bara nokkuð góð. Aðalrétturinn var lambavöðvi með kryddhjúp (fór reyndar lítið fyrir kryddhjúpnum) og ég vel hrósa matreiðslumönnum Broadway fyrir að ná fullkominni steikingu á fimm hundruð steikum! Lambið var alveg pottþétt og mun betra en ég hafði þorað að vona. Eftirrétturinn var hins vegar minna spennandi – grillaður ananas (minn hafði þó staldrað mjög stutt við á grillinu!) með mangóís sem var sæmilegur. Það er hins vegar orðið svolítið þreytt að bera eftirréttinn alltaf fram á sama hátt – ljósin í salnum slökkt og ísinn kemur upp með lyftunni á dansgólfinu, skreyttur með 3-4 pínulitlum blysum, undir Als Sprach Zarathustra. Gæti samt gengið ef þeir væru með sæmilegt grill þar sem eldurinn sæist greinilega og matreiðslu menn að þykjast grilla ananasinn yfir logunum! Slakasti réttur kvöldsins – synd þar sem forrétturinn og einkum aðalrétturinn voru mjög góðir.
Með þessu drukkum við Intis-vín frá Las Moras í San Juan í Argentínu (Intis var sólguð Inkanna). San Juan er hérað fyrir norðan Malbec, þekktasta vínhérað Argentínu, en San Juan er talið heitast um þessar mundir og mjög spennandi vín sem eru að koma þaðan. Með forréttinum drukkum við Intis Sauvignon Blanc 2008, sem býður upp á þægilegan sítrusilm með smávegis keim af nýslegnu grasi. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt með sítrónu- og melónukeim ásamt vott af grænum aspas. Frísklegt og gott eftirbragð. Með aðalréttinum drukkum við Intis Malbec 2008. Það ilmar af eik og sólberjum, ásamt vott af jarðarberjum sem aftur skilar sér í bragðinu, sem einkennist af nokkuð áberandi jarðarberjakeim ásamt vott af kirsuberjum. Það er nokkuð sýruríkt, tannínin frekar léttvæg og eftirbragðið mjúkt.
Hápunktur kvöldsins var þó tvímælalaust hinn frábæri sönghópur Le Sing, með Benna töframann í broddi fylkingar. Framkoma þeirra fellur að því er mér er tjáð undir s.k. leikhússport. Framkoma þeirra hófst þegar forrétturinn var borinn fram. Þau brugðu sér í gervi þjóna sem skemmtu gestum á ýmsan hátt. Hópurinn brá sér síðan á svið og söng þar syrpur valinkunnra dægurlaga sem allir viðstaddir þekktu og náðist strax upp mjög góð stemning á meðal veislugesta. Benni töframaður stal þó senunni með mögnuðum töfrabrögðum og gamanleik sem var alveg frábær! Stórkostleg skemmtun sem óhætt er að mæla með!