Í gær bað frúin mig um extra góðan kvöldmat og ég ákvað að skella humri á grillið. Ég hef prófað ýmsar aðferðir við að elda humar, en alltaf finnst mér best aðferðin sem ég lærði á Höfn í Hornafirði fyrir 10 árum.
Humarinn er klofinn með góðum hníf alveg niður að kviðnum og humarinn síðan brotinn upp þannig að kjötið snúi upp. Görnin hreinsuð burt. Síðan útbý ég hvítlaukssmjör – tek u.þ.b. 250 g af smjöri og bræði á pönnu, hakka 3-4 hvítlauksrif og set út í ásamt matskeið af hakkaðri ferskri steinselju. Læt það malla í smá stund og helli síðan yfir humarinn. Læt humarinn standa í u.þ.b. klukkustund. Grillið er haft vel heitt þegar humarinn er settur á og hann grillaður í 2-3 mínútur á hvorri hlið – gætið þess þó að hann ofeldist ekki. Berið fram með ristuðu brauði.
Með þessu drukkum við Montes Leyda Valley Sauvignon Blanc 2007 sem áður hafa verið gerð góð skil á síðunni. Frábær tvenna og útkoman hreinasta lostæti!