Gærdagurinn var alveg yndislegur hér í Uppsala. Sól og blíða, og yfir 20 stiga hiti. Við ákváðum að halda pínulitla kosningavöku og buðum Keizarafjölskyldunni í mat. Ég grillaði nautalund (marineruð í hvítlauk, timjan og pipar) og aspas og bar fram með salati, kartöflum og piparsósu. Útkoman auðvitað frábær! Með þessu drukkum við Chateau Antonic, sem er frá Médoc í Bordeaux. Þetta er blanda Merlot, Cabernet Sauvignon og Petit Verdot. Dökkrautt, enn nokkuð ung að sjá. Seiðandi ilmur af nýju leðri, plómum, pipar og fjólum. Kröftugt í munni, mikil fylling með löngu og þéttu eftirbragði. Dásamlegt vín.