Það er frekar rólegt að gera í vínrannsóknum þessa helgi, því ég er á bakvakt og því ekki hægt að stunda neinar rannsóknir. Ég verð hins vegar í fríi um páskana og þá er spáð ljómandi góðu veðri hjá mér, og þá verða gerðar ýmsar athuganir. Grillið var formlega tekið í notkun í gær eftir vetrarfrí, einföld nautasteik með tilheyrandi. Spáð er góðu veðri næstu daga og líklegt að grillið verði mikið notað.
Einar Brekkan laumaði að mér áhugaverðri flösku í vikunni, Dourum 2007 frá samnefndum framleiðanda í Duoro héraði í Portúgal. Vínið er blanda Tinta roriz, touriga franca og touriga nacional – allt hefðbundnar portúgalskar þrúgur en ekki mikið ræktaðar utan Portúgals. Einar segir þetta vera uppáhaldsvín sitt um þessar mundir og það er alltaf hægt að treysta meðmælum hans í þessum efnum.
Meistaradeildin framundan og mínir menn í Arsenal ferðast til Spánar til að sýna Robert Pirez að hann hefði betur verið um kyrrt í London!