Það er óhætt að segja að Vínsíðan hafi alveg farið í steik um síðustu helgi. Á laugardagsmorgun uppgötvaði ég að síðan var horfin og ég lenti inni á einhverri staðlaðri auglýsingasíðu, þar sem einnig gat að líta lítil skilaboð um að lénið væri í biðstöðu! Tölvupósturinn var auðvitað óaðgengilegur um leið og ég vissi ekkert hvað var um að vera.
Svo áttaði ég mig á því að það var kominn 21. mars og ég mundi eftir því að þegar ég var með gamla vefþjóninn var áskriftin alltaf endurnýjuð 18. mars. Ég skipti um vefhótel í apríl í fyrra og hafði eiginlega gert ráð fyrir að lénið (vinsidan.com) hefði færst með í þeim flutningum en svo var auðvitað ekki. Ég kíkti inn á heimasíðuna hjá lénþjónustunni (registrar) þar sem lénið mitt er og sá að ég þurfti að stofna reikning til að geta ráðstafað léninu. Ég gerði það og beið í 3-4 daga eftir staðfestingu á að greiðslukortið mitt væri í lagi, en sú staðfesting barst aldrei. Að lokum fékk ég mér PayPal reikning og gat gengið frá áskriftinni hjá lénsþjónustunni. Þá tók næsta vandamál við!
Ég gat auðvitað ekki tengt lénið við nýja reikninginn minn og því ekki endurnýjað áskriftina. Ég hafði því samband við þjónustudeildina og fékk þau svör að ég þyrfti að færa lénið frá gamla vefhótelinu. Það gat ég auðvitað ekki gert án þess að hafa greitt áskriftina að léninu! Þetta endaði með því að ég þurfti aftur að opna reikning hjá gamla vefhótelinu, gera tilkall till lénsins og greiða áskrift í gegnum þann reikning (eftir að búið var að tengja lénið við nýja reikninginn hjá gamla vefhótelinu!). Þetta gerði ég síðdegis í dag og nú er allt komið í lag! Einfalt mál, ekki satt. Eftir 60 daga get ég svo fært lénið yfir til nýju lénsþjónustunnar og losnað frá gamla vefhótelinu!
Lærdómurinn sem hægt er að draga að þessu – gangið vel úr skugga um hvað er innifalið við flutning á svona þjónustu. Fylgist vel með því hvenær þarf að endurnýja áskriftina á léninu. Best af öllu er auðvitað að velja sér gott vefhótel í upphafi sem sér um allt þetta fyrir þig (eins og gamla vefhótelið mitt gerði í byrjun, áður en þeir voru komnir með fleiri viðskiptavini en þeir réðu við – nú hefur þeim fækkað aftur og þjónustna greinilega aftur batnandi!).
Ég gæti kannski tekið að mér lénsflutningaráðgjöf!
Á föstudaginn ætla ég að elda lambalæri og drekka eitthvað gott rauðvín með! Meira um það síðar…