Eftir að hafa skoðað vínlistann hjá ÁTVR (sjá síðasta pistil) dundaði ég mér líka við að reikna út einhvers konar Q/P-hlutfall, þ.e. gæði/verð sem má útleggja svona: Hvað kostar hver punktur? Það er ágætis samanburðaraðferð en það gefur auga leið að dýrustu (og bestu?) vínin koma alltaf verst út úr slíkum aðferðum og því þyrfti líklega að nota mismunandi reiknireglur í ólíkum verðflokkum eða beita ýmsum frádráttarreglum, en þannig mætti líka lengi halda áfram.
Samkvæmt mínum einföldu reiknikúnstum kemur hér topp-10 listinn yfir bestu kaupin í Ríkinu um þessar mundir:
- Dr. Loosen Riesling Dr. L 2007
- Planeta La Segreta Bianco 2006
- Montes Sauvignon Blanc 2007
- Alamos Cabernet Sauvignon Mendoza 2006
- Alamos Malbec Mendoza 2007
- Norton Cabernet Sauvignon Reserva 2006
- Norton Malbec Reserva Mendoz 2006
- Feudo Arancio Chardonnay Sicilia 2007
- d’Arenberg The Custodian Grenache 2006
- d’Arenberg The Dry Dam Riesling 2007
Það kemur sjálfsagt ekkert á óvart að þrjú efstu vínin skuli vera hvítvín, því þau eru jú almennt ódýrari en rauðvínin. Það er kannski áhugaverðara að þarna séu 4 argentínsk rauðvín og 2 ítölsk hvítvín, því við erum jú að tala um vín sem fengu a.m.k. 88 punkta. Þar að auki fengu bæði vínin frá Norton 90 punkta.
Ef einhver veit um góða aðferð við útreikning gæði/verð-hlutfalls þá lýsi ég hér með eftir tillögum!