Þegar við vorum á ferð í London nú í haust (áður en kreppan skall á og við vorum stimpluð sem hryðjuverkamenn) þá passaði ég að kíkja í vínbúðina í Selfridges (stóra magasínið við Oxford Street). Þaðan tók ég með mér tvær Penfolds St. Henri Shiraz (2002 og 2004). Í kvöld langaði okkur í góðan mat og eftir að sundnámskeiðinu hennar Guðfinnu var lokið fórum við í hverfisbúðina okkar (sem er reyndar ein besta búðin í bænum) og keyptum nautasteik. Ég hafði tekið aðra St. Henri út úr kælinum fyrr í dag og eftirvæntingin var töluverð þegar ég hellti í glösin.
Vín er tekið að þroskast en samt má greina smá fjólubláan keim í röndinni sem þó er meira út í brúnt eins og við er að búast af 7 ára gömlu víni. Dökkt og djúpt vín sem sómir sér vel í Riedelglasi. Við fyrstu kynni fer frekar lítið fyrir lyktinni – örlítið grösugt í fyrstu en við þyrlun ryðjast plómurnar fram ásamt pipar og hesthúsum, fjólum og smá sýru. Tannínin eru farin að mýkjast en eiga samt nokkuð eftir, góð sýra og mjög gott jafnvægi – silkimjúkt með löngu eftirbragði sem ber með sér ögn af dökku súkkulaði. Frábært vín!
Skógarsveppasósan var kannski aðeins of kraftmikil fyrir matinn í heild en útkoman samt mjög góð.