Guðjón vinur minn hafði samband við mig í gær og leitaði ráða varðandi val á víni með hreindýrasteik. Hann og Dóri vinur hans ætla að bjóða konunum sínum upp á þríréttaða veislumáltíð og eftir að hafa heyrt matseðilinn fékk ég sko vatn í munninn. Meðal annars ætla þeir að elda hreindýrasteik og með slíku lostæti verður auðvitað að drekka gott rauðvín.
Hreindýrasteik, einkum íslenskt hreindýr, er bragðmikið og kröftugt kjöt og vínið verður því að geta ráðið við steikina. Ég er á þeirri skoðun að þegar maður er að elda svona fínar steikur, sem kosta talsverðan pening, að þá á maður ekki að spara í vínkaupunum og kaupa eitthvert ódýrt hversdagsvín. Nei, hér skal vandað til verka.
Í grófum dráttum má segja að það sem hæfir með hreindýrinu er (að mínu mati) Shiraz, Cabernet Sauvignon og Zinfandel. Shirazinn kemur auðvitað frá Ástralíu eða Rónardalnum. Peter Lehmann og Rosemount eru góðir ástralskir framleiðendur og frá Rónardalnum getur maður ávallt treyst Guigal og M. Chapoutier. Þá hafa Chateauneuf-du-pape verið einstaklega góð undanfarin ár og þau ráða vel við hreindýrin. Athugið að hér erum við að tala um vín sem kosta minnst 2500-3000 krónur.
Vilji maður fá Cabernet Sauvignon þá er hægt að fá marga slíka í vínbúðunum, einkum ameríska sem hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Beringer, Joseph Phelps og fleiri, en þegar kemur að amerískum Cabernet erum við að tala um minnst 3000 krónur, ekki minna. Það er hægt að fá góðan Zinfandel fyrir minni pening, en þá myndi ég prófsmakka áður til að vera viss um að vínið sé nógu kröftugt (Turning Leaf Zinfandel ræður alls ekki við hreindýr!).
Cabernet Sauvignon finnst auðvitað líka í Bordeaux-vínum en nú erum við farin að tala um a.m.k. 3500 krónur, ef ekki meira ef vínið á að vera nógu gott. Les Tourelles de Longueville er því miður komið upp í 5.600 krónur en það er samt voðalega gott! Þá er líka hægt að fá góðan Cabernet frá Ástralíu, t.d. Penfolds Bin 407, hvað þá 707 ef maður kemst yfir hann! Mentor frá Peter Lehmann myndi lyfta steikinni upp á annað plan!
Það er líka hægt að taka gott Riojavín en þá er eiginlega bara Gran Reserva sem kemur til greina. Að vísu gæti Muga Reserva örugglega ráðið við hreindýrasteikina, en mörg önnur Reservavín myndu ekki gera það. Mas La Plana frá Torres er svo sem ekki dæmigert Riojavín enda gert úr Cabernet Sauvignon, en spænskt engu að síður og ákaflega gott með hreindýri.