Í gær langaði okkur í góðan mat og gott vín. Við buðum því Keizaranum og fjölskyldu hans í mat – Roastbeef með þreföldum piparhjúp og timjan ásamt rösti-kartöflum og skógarsveppasósu. Algjört lostæti og með því þurfti auðvitað gott vín! Fyrir valinu varð Montes Alpha „M“ 2004. Vínið er frá Colchagua í Chile og er blanda Cabernet Sauvignon (80 %), Merlot (10 %), Cabernet Franc (5%) og Petit Verdot (5 %). Mjög dökkt vín með mikla dýpt. Enn sem komið er nokkuð lokuð lykt – leður og eik, smá ávöxtur en ekki mikið meira. Í munni ákaflega mjúkt með mjög góða fyllingu, mikil tannín en samt með silkiáferð – frábært jafnvægi. Springur út í munninum með ögn af eik og dökku súkkulaði. Langt og gott eftirbragð. Frábært vín sem hægt er að njóta núna eða geyma í nokkur ár til viðbótar (spjarar sig eflaust ágætlega í 10-15 ár!).