Um síðustu helgi brugðum við okkur til Mora í Dölunum, nánar tiltekið til Tomteland, sem á íslensku þýðir „Jólasveinaland“. Þar hefst sænski jólasveinninn við ásamt álfum, tröllum og norninni. Dæturnar voru alsælar, einkum eldri dóttirin sem fékk að fara í óþekktarskóla hjá norninni og fékk svo jólasveinaorku beint í æð úr miklum töfrasteini. Við fullorðna fólkið vorum nokkuð sátt þrátt fyrir að snjónum kyngdi niður allan tímann og við vorum farin að hafa af því áhyggjur hvort við kæmumst heim aftur. Kvöldið áður höfðum við brugðið okkur á veitingahús Klöru í Mora og gætt okkur á hreindýrasteik að hætti Dalabúa (með kantarellusveppum, hverju öðru?)- hreinasta lostæti sem við renndum niður með ágætis Zinfandel en því miður er alveg stolið úr mér hvað blessað vínið heitir!
Þegar heim var komið ákvað ég að prófa Seghesio Zinfandel 2006. Þetta er geysilega þétt og gott vín, dökkt og nánast bláleitt í glasi. Í nefið kemur góður eikarilmur, kryddaður með brómberjum, plómum, kaffi, svörtum pipar og ögn af súkkulaði. Í munnu töluverður eikarkeimum, mjög góð fylling og gott jafnvægi, kryddað bragð með berjum og plómum. Langt og gott eftirbragð sem heldur sér vel.
Frábært vín fyrir lítinn pening (SEK 165) og ég bíð spenntur eftir 2007-árgangnum. Ætla þó að lauma nokkrum 2006-flöskum í kælinn minn.