Sænsk-Íslenski vínklúbburinn hittist heima hjá mér í vikunni og þemað var að allir komu með eitt vín sem þeir vildu kynna fyrir klúbbnum:
Keizarinn kom með Domaine Dominique Guyon Hautes Cotes de Nuits Les Dames de Vergy 2007. Ljóst og kornungt Búrgúndarvín með krydduðum sólberja- og sítrónkeim ásamt útihúsakeim. Tannínsnautt með frekar mikilli sýru, dálitlum sítrónukeim, sæmilegri fyllingu en frekar stuttu eftirbragði. Hæfir e.t.v. með pasta, pizzu, túnfiski og fuglakjöti. Þarfnast örlítillar geymslu en þolir þó sennilega ekki meira en 2-3 ár. Fær 6,5 (6,0-7,0) í einkunn. Kostaði 120 SEK og því ekki mjög góð kaup.
Sjálfur kom ég með Bodegas Ramón Bilbao Rioja Crianza 2005. Spánverji sem komst á listann hjá Wine Spectator yfir góð kaup í evrópskum vínum. Dökkt, unglegt en með þokkalega dýpt. Angan af súkkulaði, leðri og hvítum pipar. Tannískt eins og við er að búast en góð sýra á móti, kryddaður ávaxtakeimur með góðri fyllingu, þétt og gott vín en ekki mjög langt eftirbragð. Hæfir vel með nautakjöti, einkum grilluðu, lambakjöti og jafnvel hvítmygluostum. Fær 8,0 (7,5-8,5) í einkunn. Kostaði 70 SEK – frábær kaup!
Dr. Leifsson kom með Chateau Belgrave Haut Medoc 2004. Sæmilega dökkt vín með byrjandi þroska, sæmileg dýpt. Leður og útihúsailmur (hnakkageymslan?) ásamt franskri eik og hvítum pipar. Mikil tannín en of lítil sýra á móti, gróft vín með smá moldarkeim (ekki í neikvæðri merkingu) og þokkalegu eftirbragði. Þarfnast einhverrar geymslu en getur þó ekki vænst langra lífdaga (2-3 ár hámark). Hæfir rauðu kjöti og e.t.v. ostum. Fær 6,5 (6,0-7,0) í einkunn (mér fannst menn reyndar vera full nískir á stigin sumir), kostar 270 SEK og því dálítil vonbrigði fyrir þennan pening. Yfirleitt ágætisvín en lélegur árgangur.
Augnlæknirinn kom með Ventisquero Queulat Carmeniere Maipo Valley Gran Reserva 2005 sem hann fékk frá konu einni fyrir að bæta sjón hennar. Þetta er þokkalega dökkt vín með ágætri dýpt og byrjandi þroska. Áberandi sólberjasulta, amerísk eik og grænn pipar. Mjög þétt vín í góðu jafnvægi, gríðargóð fylling í annars silkimjúku en kröftugu víni. Eftirbragðið í styttra lagi. Vínið þolir auðveldlega nokkur ár í geymslu en nær sennilega hámarki eftir 5-8 ár. Fær 8,5 (8,0-9,0) í einkunn. Kostar ekki nema 102 SEK og því mjög góð kaup! Passar vel með góðum steikum!