Í gær var ég þreyttur eftir næturvaktina. Sá sem var með mér sást í samtals 25 sekúndur á bráðamóttökunni og ég held að það sé met! Ég var sem sagt einn með bráðamóttökuna (fyrir skurðsviðið) en sem betur fer var rólegt. Merkilegt hvað það getur verið óskaplega mikið að gera upp í húsi hjá sumum (sem þ.a.l. sjást aldrei niðri á bráðamóttökunni) en ekki öðrum (sem þ.a.l. geta hjálpað til niðri). Ég gruna reyndar samstarfsmann minn um að hafa legið uppi á hvíldarherbergi og horft á sjónvarpið, en það er önnur saga.
Ég var þreyttur og nennti ekki að elda. Keizarinn kom því með sushi til okkar og ég fór og keypti hvítvín. Með sushinu drukkum við Carmen Chardonnay 2007. Vínið kemur frá Maipo-dalnum í Chile og passaði alveg ágætlega með sushinu. Sítruskeimur, gras og vottur af ferskjum í frískum ilmi. Greipaldin, ananas og smá gras, sýran þokkaleg og smá eikarkeimur í munninum. Þokkalegt eftirbragð. Ágætis vín fyrir ekki meiri pening (73 SEK).
Ég keypti mér líka Condrieu 2005 frá Guigal. Rónarhvítvín (viognier) sem á að fara einstaklega vel með fiskréttum. Fær 90-93 stig hjá Cellartracker. Geymi það til góðra stunda.