Við hjónin brugðum okkur til London um daginn – fyrsta skipti sem við förum eitthvað barnlaus. Keizarinn og frú fengu reyndar að fljóta með. Dinner og söngleikur, Covent Garden, Oxford Street og svo auðvitað vínbúðin í Selfridges!
Fyrsta kvöldið borðuðum við á Clos Maggiore, frönskum stað við Covent Garden. Staðurinn hefur viðurkenninguna Best of Award of Excellence (nr. 2 af 3) frá Wine Spectator og það leynir sér ekki. Vínlistinn er frekar vínhandbók og sommelierinn er nokkuð góður (réttara sagt góð). Frábær matur og Domaine Rene Monnier Mersault „Le Limozin“ 2006 var frábært val hjá henni.
Annað kvöldið borðuðum við á Momo – marokkóskur staður í hliðargötu inn af Regent’s street sem var nokkuð erfitt að finna, þar sem gatan var ekki merkt inn á kortið okkar og þar að auki úrhellisrigning sem torveldaði leitina nokkuð. Við fundum þó staðinn að lokum og getum nú vel mælt með staðnum – góður matur á góðu verði (sem þýðir a.m.k. rúmlega 120 pund fyrir þríréttaða máltíð með víni fyrir tvo). Drukkum þar ágætis Chateauneuf du Pape en því miður man ég ekki lengur hvað það heitir. Sennilega Momo’s special að kenna!
Smakkaði einnig ágætis Fois gras á litlum frönskum vínbar og með því minna spennandi hvítvín en það er alveg stolið úr mér hvað það var.
Síðasta kvöldið snæddum við á litlum og huggulegum ítölskum stað sem heitir Caramine, er staðsettur inn af Tottenham Court Road og alveg hægt að mæla með þeim stað.
Í Selfridges fæst auðvitað allt milli himins og jarðar og meira til. Þar er svo auðvitað ágætis vínbúð þar sem auðvelt er að missa sig en það varð úr að 2 flöskur af Penfolds St. Henri 2002 og 2004 fengu að fylgja með heim