Í vikunni pantaði ég rúmlega 10% af öllu því sem til er af fjólublá englinum hér í Svíþjóð (þó ekki allt fyrir sjálfan mig). Í dag var alveg einstaklega gott veður, sól og tæplega 30 stiga hiti og því alveg tilvalið að grilla nautalund og opna góða rauðvínsflösku. Ég hreinlega stóðst ekki mátið og opnaði Montes Purple Angel 2005 og ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum.
Þetta er þriðji árgangurinn af fjólubláa englinum og annar árgangurinn sem ég prófa. 2005 árgangurinn er blanda Carmenere (92%) og Petit Verdot (8%). Það er ungt að sjá, með góða dýpt og ákaflega dökkt á lit. Í nefi krydd og örlítið súkkulaði og vindlakeimur. Gríðarleg tannín í munni, en nóg af sýru til bæta það upp og vínið er í góðu jafnvægi, mikil fylling, dálítill sólberjakeimur. Langt og mikið eftirbragð. Ákaflega gott vín sem þolir að minnsta kosti áratug í geymslu. 36.000 flöskur framleiddar. Góð Kaup – eitt af bestu vínunum frá Chile. Passaði mjög vel með grilluðu nautalundinni.
Ég hlakka til að opna hinar flöskurnar (2004 og 2005) en það fær að bíða betri tíma!