Robert Mondavi, stofnandi samnefnds vínfyrirtækis og einn áhrifamesti maðurinn í bransanum um áratugaskeið, lést í síðustu viku, 94 ára að aldri.
Mondavi á hvað stærstan þátt í því að koma bandarískum vínum á kortið og hafði mikil áhrif á víngerð þar vestra. Hann framleiddi vín undir eigin nafni og Mondavi Cabernet Sauvignon Private Reserve hefur lengi verið talið á meðal bestu vína í Kaliforníu. Þá stofnaði Mondavi til samstarfs með Phillippe de Rothschild barón og afrakstur þessa samstarfs varð Opus One, goðsagnakennt vín sem er í miklu uppáhaldi hjá ritstjóra Vínsíðunnar. Mondavi framleiddi þó ekki aðeins dýr lúxusvín, heldur vildi hann að almenningur ætti kost á gæðavínum á viðráðanlegu verði, enda sannfærður um hollustu hófdrykkju.