Jæja, þá erum við komin til Íslands, og við nánari athugun kom í ljós að það er liðið eitt og hálft ár síðan ég var hér síðast! Í millitíðinni hef ég víða farið en það er nú alltaf best að koma heim til Íslands. Komuverslunin hefur greinilega verið stækkuð og úrvalið aukið, vínúrvalið m.a.s. nokkuð gott. Ég keypti auðvitað pínulítið, m.a. eina flösku sem ég ætla að taka með í vínklúbbinn, en stefnt er að fundi þar í næstu viku – fyrsti fundurinn minn í 6 ár! Ég keypti líka tvær Rosemount GSM en því miður brotnaði ein flaskan þegar heim var komið, þannig að við urðum að gera okkur eina að góðu í gærkvöldi. Ég grillaði þá smálúðu með tvenns konar marineringu og það er langt síðan ég hef eldað jafn góðan fisk! Ég hefði reyndar viljað hafa góðan Chablis með þessu en íslenska vatnið er líka alveg einstaklega gott og hæfir vel með öllum fisk!