Á morgun liggur leiðin til Ítalíu og við ákváðum að taka því rólega í kvöld, keyptum dálítið sushi til að borða sem kvöldsnakk og þá er ómissandi að fá sér hvítvín með. Fór því í systemið (sænska Ríkið) og rakst á Jordan Stellenbosch Chardonnay 2006. Ég hef aldrei smakkað það áður en hef prófað Jordan Cobblers Hill 2003 sem vakti mikla lukku.
Niðurstaðan af smakki kvöldsins er sú að hinn suður-afríski Jordan er hér með kominn í hóp uppáhaldaframleiðanda minna! Þetta Chardonnay er nánast litlaust, vottar ögn fyrir strágulum fölva. Daufur en um leið frísklegur ilmur sítrusávaxta og eikar sem einnig skila sér í bragðinu, þar sem sítrus og eik eru áberandi ásamt dálitlum smjörkeim. Mjúkt og gott eftirbragð. Gott með sushi, passar eflaust vel með laxi og skelfiski. Tvímælalaust mjög góð kaup!