Við fengum góða gesti um síðustu helgi þegar Hugrún og Hermann komu í heimsókn. Þau tóku með sér ýmislegt góðgæti og ég reyndi því að draga fram eitt og annað lítilræði úr skápnum mínum (sem því miður er mjög lítill, en ég hef augastað á 200-flösku Bosch-kæli).
Fyrsta kvöldið var fengum við okkur dálítið sushi sem forrétt og með því drukkum við Kloster Eberbach Kabinett Riesling 2006 (sjá umsögn annars staðar á síðunni). Aðalrétturinn var „steiktur“ skötuselur (átti að vera grillaður en einmitt þegar átti að kveikja á grillinu komst ég að því að allt gasið hafði lekið út) en mér tókst þó ekkert sérstaklega vel upp með hann – illa farið með gott hráefni (Hermanni fannst hann þó mjög góður, a.m.k. þeir bitar sem voru heitir!). Með því drukkum við Chardonnier Chablis Premier Cru Vaillons 2004 og Jean-Marc Brocard Chablis Premier Cru Beauroy 2005. Nokkuð keimlík, frískleg vín sem féllu ágætlega með skötuselnum. Um kvöldið opnuðum við svo eina þyngstu rauðvínsflösku sem ég hef nokkurn tíma handfjatlað, Montes Purple Angel 2004 úr Colchagua-dalnum í Chile. Blandað úr Carmenére (92%) og Petit Verdot (8%), frísklegt en um leið magnaður bolti! Mæli hiklaust með þessu (reyndar komið á innkaupalistann hennar Guðrúnar fyrir næstu Íslandsferð!).
Á laugardeginum var svo mikil veisla, þegar við drukkum feiknagóðan Bordeaux, Chateau Lagrange Saint-Julien 1989 sem ég fékk á sínum tíma frá Einari Brekkan. Dásamlegt vín með mikila og góða fyllingu, silkimjúkt þegar það hafði opnað sig (þurfti smá stund). Takk Einar! Síðan drukkum við Penfolds RWT Shiraz 2001 úr Barossa-dalnum í Ástralíu. Annað magnað vín sem einnig féll vel með grilluðu nautalundinni frá Brasilíu. Að því loknu fylgdumst við með Eurovision og kosningunum heima á Íslandi. Þegar við fórum að sofa var stjórnin fallin en hún rétti þó úr kútnum um nóttina og var því enn við völd þegar við vöknuðum á sunnudeginum.
Sunnudagurinn var öllu rólegri (vínlega séð). Lítið fór fyrir eldamennskunni heima við en þess í stað fórum við á góðan sushi-stað hér í Uppsölum, Ayakos-sushi, þar sem við fengum feiknagott sushi en vínúrvalið þar var mjög fátæklegt og það besta sem við fundum var Sunrise Chardonnay 2006. Það stóðst auðvitað engan veginn samanburðinn við hvítvínin frá föstudeginum en dugði ágætlega með sushiinu.
Ég sýndi Hermanni hina geysistóru (en hálftómu) vínbúð hér í hverfinu og ég held svei mér að hann vorkenni mér að hafa ekki úr öðru að velja (sjá athugasemd við fyrri færslu). Þetta opnar þó bara augun fyrir öðru sem maður hefði kannski ekki litið við áður, en samt get ég ekki annað en tekið undir með honum að plássið er illa nýtt og úrval gæðavína er fremur fátæklegt. Ef Hermann kemur með slíkar veigar í hverri ferð get ég þó bara óskað mér að hann komi hingað sem oftast!