Ég var á námskeiði í Frakklandi nú í vikunni, nánar tiltekið í Versölum. Hótelið sem ég gisti á var aðeins nokkur hundruð metra frá höllinni frægu, en hótelið sjálft, Trianon palace, á sér þó merka sögu. Það var á sínum tíma byggt sem „sumarhús“ fyrir Marie Antoinette og sjálfsagt verið notalegt lítið slot til að hvíla sig frá skarkalanum við frönsku hirðina (húsið er bara örlítið minna en norska konungshöllin og því augljóslega aðeins nothæft til stuttra sumardvala!). Á tímum síðari heimstyrjaldarinnar mun húsið svo hafa verið aðsetur Vichy-stjórnarinnar, en hvað um það.
Vorið í París var augljóslega nokkuð lengra á veg komið en vorið í Uppsölum, þægilegur 25 stiga hiti og allt að springa út. Í þessari ferð komst ég í kynni við þokkalegan Pauillac sem féll vel að frönskum lambahrygg en ég skildi ekki alveg þjóninn þegar hann sagði hvaða vín þetta væri, aðeins að það væri frá Pauillac (ég þarf kannski að fara að læra frönsku?). Seinna kvöldið borðuðum við á litlum veitingastað fyrir utan París, þar sem áður var munkaklaustur og þar smakkaði ég í fyrsta skipti foie gras og ég veit svei mér ekki ennþá hvað mér finnst um þennan rétt. Vissulega var hann bragðgóður en eftir nokkra bita fannst mér að fitubragðið væri orðið full áberandi. Því miður sá ég aldrei hvaða hvítvín við drukkum með lifrinni en mér skilst að það hafi verið chablis.
Samantekið aðeins betri ferð en Berlínarferðin, en verst að maður fær ekki alltaf að sjá flöskurnar þegar maður fer út að borða með hóp og búið að velja mat og vín fyrirfram.