Jamm, þá er maður kominn heim frá Berlín og herfangið (vínsmakkanir) heldur dapurt. Fyrsta kvöldið hitti ég íslensku kollegana og við fórum saman út að borða á ágætan austurrískan stað þar sem ég fékk mér fylltar fasanabringur og með því var drukkin einhver þýskur merlot en því miður sá ég aldrei flöskuna almennilega og veit því ekki hvað það heitir (reyndar ekki mikið söfnunargildi í víninu en það passaði þó ágætlega með matnum). Fékk mér svo glas av eiswein á eftir (sama hér, sá aldrei flöskuna, þó ágætt ísvín). Næsta kvöld fór ég út með sænsku kollegunum á nokkuð góðan stað á aðallestarstöðinni í Berlín (glæsileg lestarstöð, nota bene) þar sem boðið var upp á margréttaðan matseðil með m.a. túnfiski og kálfakinnum! Með þessu var drukkið ágætis þýskt hvítvín en því miður voru þjónarnir ekkert á því að sýna okkur flöskurnar! Finnst það kannski óþarfi þegar búið er að ákveða matseðilinn og vínið með matnum fyrirfram. Síðasta kvöldið var svo hið hefðbundna EAU-evening þar sem þemað var þriðji og fjórði áratugur síðustu aldar. Eina rauðvínið sem ég fékk það kvöld var útvortis því einhver aulinn náði að hella úr glasinu mínu yfir jakkann minn! Annars bara ómerkilegt hvítvín.
Þannig að í heildina litið varð þetta engin frægðarför vínfræðilega séð. Þetta gengur vonandi betur næst!