Það hefur verið heldur rólegt hjá ritstjóra Vínsíðunnar síðustu viku og lítið verið smakkað. Opnaði þó Concha y Toro Casillero del Diablo Cabernet Sauvignon 2005 um helgina, einfalt og þægilegt vín fyrir venjulegt laugardagskvöld, passaði ágætlega með grillmatnum – já, ég er byrjaður að grilla! Ég hélt að vorið væri komið hér í Uppsölum, en í dag þurfti ég að berjast í gegnum slyddu, þannig að vorið lætur aðeins bíða eftir sér. Ég er þó á leið til Berlínar á þriðjudaginn og verð þar fram á laugardag. Markmiðið er að kynnast þarlendum veigum aðeins betur og hver veit nema einhver flaska lendi í töskunni fyrir heimleiðina. Ég hef þó verið frekar latur að kaupa vín þegar ég hef farið erlendis á ráðstefnur – keypti þó tvær Chateau Chasse-Spleen í Sviss hér um árið, sælla minninga.
Skýrsla verður gefin við heimkomu!