Við vorum með matarboð um helgina, buðum Einari og Árdísi Brekkan í mat. Í forrétt höfðum við risarækjur með ávaxtasalsa og með því drukkum við Kloster Eberbach Riesling Spätlese 2006 frá Rheingau í Þýskalandi. Hálfþurrt vín með góðum ávaxtakeim (aðallega perur með smá hunangi), frísklegt með góðum sítruskeim. Í aðalrétt höfðum við fyllt lambalæri og með því drukkum við Jordan Cobblers Hill 2003 frá Stellenbosch í Suður-Afríku. Þetta er hefðbundin Bordeaux-blanda (Cab. Sauvignon, Cab. Franc og Merlot). Dökkt og fallegt vín með dálitlum ávaxtakeim, eik og tóbak. Góð fylling með smá eikar- og kaffikeim, gott jafnvægi og kröftugt eftirbragð. Í eftirrétt höfðum við svo Tiramisu (vissi reyndar ekki fyrr en eftirá að Árdís væri Tiramisu-sérfræðingur, en við fengum „fullt godkändt“ hjá henni). Með því drukkum við Moscatel de Setúbal 1997 frá Portúgal. Nokkuð dökkt vín með sterkum keim af appelsínum, rúsínum og hnetum, mjög sætt og gott ef það örlar ekki á súkkulaði í eftirbragðinu.
Mjög vel heppnað kvöld og ég ætla að ná mér í meira af þessum Jordan, enda frábært vín.