Þetta vín var árshátíðarvín Vínklúbbsins árið 2000.
Cabernet Sauvignon er ókrýnd drottning rauðu þrúganna í Kaliforníu og líkt og aðrar rauðar þrúgur þarf hún nokkuð harðneskjulegar aðstæður til að gefa af sér góð vín. Í Alexander Valley, sem er rétt norðan við Napa Valley í Sonoma-héraði, er hins vegar mjög hlýtt og jarðvegur frjór. Víngerðarmenn þurfa því að dekra við vínviðinn og hefta vöxt hans, annars eyðir hann öllu púðri í vöxtinn og gleymir þrúgunum. Það hefur tekist vel í Kaliforníu og þaðan koma nú mörg af bestu vínum heimsins í dag.
Þrúgurnar í þetta vín eru valdar af vínekrum í vesturhlíðum Alexander Valley, pressaðar og látnar liggja og gerjast með hratinu í 4-5 daga áður en safanum er fleytt ofan af og gerjun haldið áfram í nýjum amerískum eikartunnum. Síðan eru bestu tunnurnar valdar úr og notaðar í lokablönduna, sem síðan er látin þroskast í 12 mánuði til viðbótar í bæði nýjum og notuðum amerískum eikartunnum. Vínið var síðan sett á flöskur í maí 1998.
Vínið hefur talsverða dýpt, er miðlungs dökkt, sýnir góðan byrjandi þroska. Falleg, purpurarauð áferð. Í nefinu áberandi amerísk eik með vott af vanillu. Við þyrlun brýst í gegn hindberjasulta, ristað brauð og Camembert. Í munni er þetta fínlegt vín með frönsku yfirbragði. Gott jafnvægi og góð fylling. Gríðarlega þétt og langt eftirbragð. Vín sem á mörg góð ár eftir. Hæfir jafnt lambakjöti sem fínustu nautasteikum. Gæti jafnvel hentað villibráð.
Tímaritið WineSpectator gefur 1996 árgangnum 90 stig og þessa umsögn: „Dark, ripe and focused, with a core of currant, mineral, black cherry and wild berry flavors that turn elegant and polished. Finishes with a cedary edge. Drink now through 2007.“
Einkunn: 8,5 – Góð Kaup.