Vín mánaðarins í júní 2000 er Semillon árg. 1998 úr Diamond-línunni frá Rosemount Estate í Ástralíu.
Semillon-þrúgan hefur fram til þessa einkum verið notuð til íblöndunar við aðrar ljósar þrúgur og notuð jafnt í þurr hvítvín sem í sæt eftirréttavín. Ásamt Chardonnay er hún ein helsta ljósa þrúgan í Hunter Valley, sem er í Nýja Suður-Wales í Ástralíu. Þar er moldin gróðurrík og loftslag hlýtt. Þannig aðstæður henta síður rauðum þrúgum en eru kjöraðstæður fyrir ljósar þrúgur.
Þrúgurnar í þessu víni eru valdar af vínekrum í efri hluta Hunter Valley. Þrúgurnar eru pressaðar og síðan látnar liggja í sólarhring áður en safanum er fleytt ofan af og hann settur í stáltanka og látinn gerjast við 12-15°C. Vínið er síðan geymt í eikartunnum í 3 mánuði áður en því er tappað á flöskur.
Vínið er fölleit, sýnir dálítil dýpt, og á því er vatnsleit, græn slikja (en blátt í röndina). Í nefið kemur fyrst fram nýslegið gras, en lyktin er opin og blátt áfram, ekki ýkja margbrotin – aspas? Við þyrlun brýst sítrusávöxturinn fram en hóflega þó. Í munni er vínið vel stamt, talsverð sýra en gott jafnvægi og fallegt eftirbragð. Sítruskeimur sem færir víninu léttleika og ferskleika. Frábært sumarvín. Passar vel með skelfiski, silungi og jafnvel léttu pasta (án rjóma).
Einkunn: 8,5