Vín mánaðarins í mars 2001 heitir því langa nafni Tenute Marchesi Antinori Chianti Classico DOCG Riserva 1997 og kemur frá sjálfum Marchesi Antinori. Vínið er blandað úr 90% Sangiovese og 10% Cabernet Sauvignon og öðrum rauðum þrúgum sem valdar eru af Santa Cristina, Peppoli og Badia a Passignano vínekrum á Mercatele Val di Pesa svæðinu í Chianti Classico, en það eru bestu vínekrur Antinori-fyrirtækisins. Það er mjög dökkt af Chianti að vera, með áberandi kirsuberjum og fjólum í nefinu með ögn af tóbaksangan. Það hefur ríkulega fyllingu, gnótt tannína og góða sýru og á mörg góð ár eftir. Eftirbragðið langt og mjúkt. Gengur vel með íslenska lambinu og að sjálfsögðu ítölskum mat.
Einkunn: 9,0 – Góð Kaup